Um okkur
Hlutverk Elmu
Elma orkuviðskipti er félag sem hefur það hlutverk að veita markaðsaðilum öruggan, áreiðanlegan og gagnsæjan raforkumarkað á Íslandi.
Elma starfrækir skammtímamarkað með raforku, svokallaðan næsta-dags markað, í samstarfi við Nord Pool, sem er leiðandi þjónustuaðili á evrópskum raforkumarkaði. Viðskipti á skammtímamarkaðnum fara fram með klukkustundavöru með dags fyrirvara. Elma gegnir hlutverki miðlægs mótaðila á næsta-dags markaði og tekur á sig áhættu vegna fjárhagslegs uppgjörs. Með því býður Elma uppá fyrirsjáanlegt, öruggt og tímanlegt uppgjör viðskipta. Með skýrum leikreglum eykst fyrirsjáanleiki og gagnsæi viðskipta sem mun að endingu leiða til skýrari og skilvirkari verðmyndunar.
Samhliða býður Elma uppá sértækan rafrænan uppboðsmarkað fyrir langtímasamninga. Það er sveigjanlegt kerfi sem markaðsaðilar geta nýtt sér, hvort heldur er, til sölu eða kaups á sérsniðnu vöruúrvali langtímasamninga. Kerfið þjónar þannig mismunandi þörfum og áherslum markaðsaðila.
Elma er dótturfélag Landsnets hf. og að fullu í eigu flutningsfyrirtækisins.
Stjórn og starfsfólk
Stjórn Elmu orkuviðskipta skipa Guðmundur Ingi Ásmundsson og varamaður er Guðlaug Sigurðardóttir.