Leiðarljós okkar er að skapa betri skilyrði fyrir fjölbreytta atvinnustarfsemi, færa orkuviðskipti landsins í samkeppnishæft og skilvirkt umhverfi sem stuðlar að verðmætasköpun. Besta nýting auðlindarinnar er tryggð sem aftur styður við orkuöryggi. Þannig nýtur þjóðin ávinnings af orkuauðlindinni.
Nýsköpun og fjölgun aðila á markaði eykur orkuöryggi til allra notenda.
Innbyggðir hvatar til betri nýtingar orku getur haft bein og jákvæð áhrif á þróun og hraða orkuskipta. Á virkum orkumarkaði verður til hringrásarkerfi fyrir orkuviðskipti, nokkurs konar "Kolaport" eða endursölumarkaður.
Aukið aðgengi framleiðenda og notenda að orkuviðskiptum styður við orkunýtingu og takmarkar sóun. Virkur viðskiptavettvangur skapar tækifæri fyrir þessa aðila að selja og endurselja orkuna. Slíkt aðgengi hvetur jafnframt til fjárfestingar og hagræðingar í orkunotkun fyrirtækja og heimila.
Þá eykur virkur viðskiptavettvangur verðgegnsæi og gefur verðmerki gagnvart bæði fjárfestingu í kerfum og hentuga tímasetningu notkunar gagnvart neytendum.
Með virkum viðskiptavettvangi skapast möguleikar til valdeflingar og áhrifa neytenda með aukinni vitund um verð, nýtingu og jafnvel möguleika til framtíðar á sölu umframorku þeirra inn í kerfið. Aukinn hvati verður til nýsköpunar í orkuframleiðslu, -dreifingu og -notkun, sem stuðlar að virðisaukningu í samfélaginu.
Hringrásarhagkerfi á skipulögðum, virkum viðskiptavettvangi með raforku eykur möguleika á því að minnka kolefnisspor samfélagsins í heild þar sem ákvarðanir neytenda og notenda orku tengjast beint inn í hagkvæmnishvata vettvangsins. Betri nýting, nýtni og raforkuöryggi er grunnforsenda fyrir þróun sjálfbærni.